Velheppnaður Orkufundur

Miðvikudaginn 10. maí fór fram Orkufundur 2023, Þar sem orkan verður til. Fundurinn var haldinn á Hilton en einnig var hægt að fylgjast með í streymi.

Hægt er að horfa á orkufundinn og skoða glærur hjá fyrirlesurum hér: https://orkusveitarfelog.is/adalfundir/thar-sem-orkan-verdur-til-orkufundur-2023/

Fundurinn var vel sóttur og voru fyrirlestrarnir áhugaverðir en þeir voru allir miðaðir af sveitarfélögunum.
Ása Valdís Árnadóttir formaður stjórnar Samtaka Orkusveitarfélaga opnaði fundinn með því að fara yfir þá vinnu sem hefur verið unnin síðustu ár og mánuði.


Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson fór yfir mikilvægi nærsamfélagsins vegna orkuiðnaðar og sagði frá því að búið væri að samþykkja að stofna starfshóp um breytingar á skattkerfinu.
Breytingar sem eiga að auka tekjur sveitarfélaga af virkjunum í nærsamfélaginu. Það er mat hans að það sé sanngirnismál að tekjur renni í auknum mæli til nærsamfélagsins.

Kristín Linda Árnadóttir stjórnarformaður Samorku fór meðal annars yfir mikil- og margvísleg hlutverk sveitarfélaga í fyrirlestri sínum um Orkuskiptin fram undan og hvernig við komumst þangað.

Tryggvi Þór Haraldsson ráðgjafi og fyrrum forstjóri Rarik fór yfir dreifikerfi raforku – núverandi staða og dreifikerfið eftir orkuskiptin. Niðurlagið í hans fyrirlestri var að til að koma í veg fyrir að kostnaðurinn lendi aðeins á íbúum í dreifbýli þarf miðað við núverandi regluverk annað hvort að verðjafna betur, eða stjórnvöld að koma með fjármagn í verkefnin.


Jónína Brynjólfsdóttir forseti sveitarstjórnar Múlaþings fór yfir hvort orkuiðnaður sé ákjósanlegur kostur fyrir sveitarfélög. Jónína teiknaði nokkuð dökka en sanna mynd af því að í dag sé staðan einfaldlega sú að orkuiðnaður er ekki ákjósanlegur kostur fyrir sveitarfélögin þar sem tekjur til sveitarfélagsins eru lágar, störf séu fá sem skili sér í litlu útsvari, orkuiðnaður tryggir engan umfram ábata og orkuiðnaður veldur óafturkræfum og neikvæðum áhrifum á náttúru og getur valdið neikvæðum samfélagsáhrifum.

Haraldur Þór Jónsson, oddviti og formaður starfsnefndar orkuksveitarfélaganna fór yfir það hvernig orkuiðnaður geti orðið góður kostur fyrir sveitarfélögin en niðurlagið hans var það að tryggja þurfi nærsamfélaginu ábata af orkuvinnslu.

Í lokin fóru fram pallborðsumræður sem voru mjög fróðlegar og skemmtilegar.

Fundarstjóri fundarins var Elliði Vignisson bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss.