Stefnumörkun stjórnar

Stefnumörkun stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

Samkvæmt 3. grein samþykkta Samtaka orkusveitarfélaga er tilgangur samtakanna þessi:

 • Að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga í öllum málum sem tengjast byggingu orkuvera og virkjana, orkunýtingar, fjárhagslegum hagsmunum í þessu sambandi og umhverfismálum.
 • Að taka þátt í mótun reglna um skattlagningu virkjana og orkufyrirtækja ásamt öðrum fjárhagslegum og umhverfislegum atriðum sem tengjast nýtingu orkuauðlinda.
 • Að taka þátt í mótun orkustefnu með áherslu á stöðu vatnsafls og jarðvarma sem sjálfbærrar orkuframleiðslu.
 • Að miðla upplýsingum og reynslu meðal aðildarsveitarfélaga um málaflokkinn.
 • Að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. vinnu við gerð laga og reglugerða sem varða orkumál og nýtingu jarðvarma og vatnsafls og stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem því tengjast.

Með hliðsjón af tilgangi samtakanna hefur stjórn SO sett sér markmið og greint leiðir og fyrstu skref að þeim.

Markmið

 • Að arður af nýtingu náttúruauðlinda til raforkuframleiðslu skiptist með sanngjörnum hætti milli þeirra sem eru hagsmunaaðilar við orkuvinnslu. Það eru eigandi auðlindarinnar, orkuframleiðandinn, orkukaupandinn, þjóðin og nærsamfélagið.
 • Að sveitarfélög sem ná inn á vatnasvið og varmasvið sem nýtt eru til orkuframleiðslu séu fulltrúar nærsamfélagsins við alla ákvarðanatöku í málaflokknum og þegar kemur að því að fá hlutdeild í arðinum.
 • Að lög og reglur um innheimtu opinberra gjalda af orkuiðnaðinum verði að öðru leyti skýr og í samræmi við það sem gerist og gengur um atvinnustarfsemi og eignir.

Leiðir

 • Gerðar verði breytingar á löggjöf um orkuvinnslu þess efnis að hlutdeild í arði af orkuvinnslu renni til sveitarfélaga á vatna- og varmasvæðum virkjana. Horft verði til norskrar löggjafar sem fyrirmyndar.
 • Settir verði í löggjöf gegnsæir mælikvarðar sem skilgreina hvaða sveitarfélög ná til vatna- og varmasvæða virkjana.
 • Samtök orkusveitarfélaga fái til umsagnar allar breytingar á lögum og reglum er varða starfsumhverfi orkufyrirtækja og tilnefni fulltrúa í starfshópa og nefndir innan þessa málaflokks.
 • Samtök orkusveitarfélaga standi reglulega, ein og sér eða í samstarfi við aðra, fyrir ráðstefnum og fræðsluerindum um auðlindamál og auðlindanýtingu til að efla umræðu um málefnið.
 • Lögum um skráningu og mat fasteigna verði breytt þannig að orkumannvirki verði ekki undanþegin frá fasteignamati og greiðslu fasteignagjalda til sveitarfélaga. Þetta eigi m.a. við um stíflumannvirki og raflínur. Í lögunum verði einnig viðmið um framkvæmd mats á viðkomandi mannvirkjum.

Fyrstu skref

 • Samtök orkusveitarfélaga standi fyrir fundum með einstökum orkufyrirtækjum, viðkomandi ráðuneytum og alþingismönnum þar sem leitað verði samstöðu um nauðsynlegar breytingar á löggjöf.
 • Samtök orkusveitarfélaga láti vinna eigin úttekt á norskri löggjöf og áhrifum af upptöku sambærilegra meginreglna hérlendis, bæði lagalegum og efnahagslegum.
 • Samtök orkusveitarfélaga standi fyrir Orkufundi haustið 2013 þar sem flutt verði fræðsluerindi og efnt til umræðna um framangreind markmið með þátttöku sveitarfélaga, orkufyrirtækja og fulltrúa ríkisins.
 • Leitað verði þverpólitískrar samstöðu meðal þingmanna um flutning þingsályktunartillögu um nauðsynlegar breytingar á löggjöf. Samtök orkusveitarfélaga taki saman drög að slíkri þingsályktun.
 • Samtök orkusveitarfélaga beini því til stjórnar Sambands sveitarfélaga að þrýsta á um afnám gildandi undanþága frá greiðslu fasteignagjalda, m.a. vegna flutningskerfa, stíflumannvirkja og vindmylla.