Frábær þátttaka á upplýsingafundi Samtaka orkusveitarfélaga

Frábær þátttaka var á upplýsingafundi Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var 2. mars síðastliðinn en rúmlega 50 aðilar voru á fundinum.

Á fundinum fór formaður stjórnar, Ása Valdís Árnadóttir stuttlega yfir þá vinnu sem samtökin hafa staðið í undanfarin ár í tengslum við skattlagningu orkumannvirkja.

Haraldur Þór Jónsson oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps fór yfir vinnu sveitarfélagsins síðustu mánuði sem hefur sýnt fram á tjón sveitarfélagsins af orkuvinnslu og hverju þarf að breyta til að frekari orkuvinnsla muni eiga sér stað í sveitarfélaginu.

Loks fór Jónína Brynjólfsdóttir forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi og stjórnarmaður í Samtökum orkusveitarfélaga yfir markmið og hlutverk nýstofnaðar starfsnefndar samtakanna um breytingar á tekjum og lagaumhverfi vegna orkuvinnslu.

Opnað var fyrir spurningar í lokin og varð góð umræða um þær. Hér má finna upptöku frá fundinum: https://orkusveitarfelog.is/upplysingafundur-um-orkumal/

Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga hefur unnið með KPMG síðust mánuði að stefnumótun samtakanna og verður sú vinna kynnt á næstu vikum en einn af punktunum sem er að teiknast upp úr þeirri vinnu er að aðildarsveitarfélögin vilja sameinast um ákjósanlegar leiðir til innheimtu sanngjarnra skatta og auðlindarentu er að fela í sér auknar tekjur til sveitarfélaga sem verða fyrir áhrifum af orkuvinnslu. Þessi upplýsingafundur var liður í því að fá aðildarsveitarfélögin til að byrja að hugsa um hvaða leiðir eru ákjósanlegar. Starfsnefndin verður með vinnufund á næstu dögum þar sem sveitarstjórnarmönnum og framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaganna gefst kostur á að koma sínum hugmyndum á framfæri.