Nýjar aðferðir við orkuöflun

Eftirspurn eftir raforku er nú þegar umfram framboð hér á landi, segir í nýrri skýrslu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur látið gera um nýjar aðferðir við orkuöflun. Vindorka, lítil vatnsorkuver og varmaorka eru þeir orkukostir sem taldir eru líklegastir til að leysa úr stóraukinni orkuþörf á næstu áratugum. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki fyrir orkubúskap þjóðarinnar.

 

Skýrslan var gerð að beiðni Alþingis og er liður í mótun langtímaorkustefnu fyrir Ísland. Einkum er fjallað um nýtingu vindorku, sjávarorku og varmaorku með varmadælum, auk þess sem litið er til annarra möguleika við orkuöflun á komandi árum. Líkleg framtíðarþróun er greind í hagnýtingu þessara orkugjafa og stiklað er á helstu tæknilegu og umhverfislegu úrlausnarefnum sem huga verður að í því sambandi. Má þar nefna sem dæmi náttúrufar, staðarval, rekstur og förgun. Þá er einnig fjallað um lög og lagalegt umhverfi leyfisveitinga.

Aukin eftirspurn eftir grænni raforku er aðallega rakin til fólksfjölgunar, tækniþróunar, nýrra umhverfisvænna atvinnuhátta og orkuskipta. Miðað við orkuspá til ársins 2050 gæti umframorkuþörf numið um 3.800 GWst á ári umfram það sem nú er. Gangi sú þróun eftir, samsvarar það rúmlega einni og hálfri Búrfellsstöð, en stöðin telst til stórra orkuvera með 270 MW uppsett afl og 2.300 GWst orkuvinnslugetu á ári.

Þá segir að Ísland njóti sérstöðu í alþjóðlegum samanburði, en óvíða megi finna orku- og varmaframleiðslu sem er framleidd nánast alfarið á endurnýjanlegum grunni. Keppikefli flestra ríkja sé að auka sem mest hlutdeild endurnýjanlegrar orku af margvíslegum ástæðum, ekki hvað síst til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka orkuöryggi með innlendri orkuframleiðslu.

Helsti vöxtur í endurnýjanlegri raforkuframleiðslu er sagður í vind- og sólarorku. Tækninni hafi fleygt fram og séu þessir kostir að verða afar hagstæðir í samanburði við hefðbundnari orkukosti, hvort sem þeir eru af jarðefna- eða endurnýjanlegum uppruna.

Meginniðurstaða skýrslunnar er sú, að þessari auknu eftirspurn verði ekki mætt, nema með því að auka grænt raforkuframboð. Fækki hefðbundnum kostum í jarðvarma og vatnsafli á sama tíma, þurfi jafnframt að huga að nýjum endurnýjanlegum orkukostum.

Miðað við tæknilegan áreiðanleika og upplýsingar um hagkvæmni eru einkum þrír orkukostir sem nú standa öðrum framar og unnt er að hrinda samhliða í framkvæmd á næstu árum. Þetta er orkuframleiðsla með vindorku, litlum vatnsorkuverum og varmadælum. Auk þess sem þessir orkukostir fari vel saman, megi nýta hvern þeirra einan og sér, allt eftir aðstæðum.

Þá eru sveitarfélög hvött til að gefa vindorkunýtingu nánari gaum, ekki hvað síst í skipulagsmálum. Litlir vindorkugarðar afkasti jafnmikla orku á ársgrundvelli og litlar vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir. Snæfellsbær og Rangárþing ytra hafa, sem dæmi, látið kanna möguleg sóknarfæri í þessum efnum og eru úttektir unnar af verkfræðistofum birtar sem fylgiskjal með tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaganna. Litið er svo á að slíkar grunnrannsóknir við gerð aðalskipulags muni flýta málsmeðferð, berist sveitarfélaginu formlegar umsóknir vegna vindorkunýtingar.

Um smávirkjanir segir m.a. að stofnkostnaður á MW megi ekki vera hærri en 320 m.kr. á verðlagi 2018, svo að litlar vatnsaflsvirkjanir geti talist ásættanlega arðbærar. Það þurfi því að vanda til vals á stærð vélbúnaðar með tilliti til vatnsmagns, fallhæðar og orkuverðs. Næsta skref sé að útfæra betur framkomnar hugmyndir. Finna þurfi nákvæmari gildi fyrir uppsett afl og orkugetu og gera kostnaðar- og arðsemismat með tilliti til aðstæðna, áður en ráðist verður í framkvæmdir.

Varðandi staðarval fyrir vindorkuver er bent á, að fjalla megi í landsskipulagsstefnu um slíkt staðarval, að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélög, með það fyrir augum að samþætta áætlanir opinberra aðila, s.s. vegna náttúruverndar og orkunýtingar eða annarra málaflokka sem varða landnotkun skv. 10. gr. reglugerðar 1001/2011, sbr. 2. mgr. 45. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010. Rammaáætlun tæki þá einungis til landsvæða þar sem er að finna fallvatn og/eða jarðhitakerfi á afmörkuðu svæði en ekki til vindorkuvera.

Einnig er bent á að þar sem gildissvið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun víki að hvorki vind- né sjávarorku samkvæmt ákvæðum laga, sé vafasamt að líta á þessa orkugjafa sem landsvæði þar sem finna má orkulindir, þ.e. virkjunarkosti til orkuvinnslu á sama hátt og fallvatn og/eða jarðhitakerfi á afmörkuðu svæði, sem lögin taka ótvírætt til.

Skýrsla ráðherra er samin að beiðni Alþingis og fjallar um nýjar aðferðir við orkuöflun. Skýrslan var unnin í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með aðkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Orkustofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku og fyrirtækja innan vébanda þeirra.