Kvörtun Samtaka orkusveitarfélaga til Eftirlitsstofnunar EFTA

Samtök orkusveitarfélaga (SO) sendu í dag erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) fyrir meint brot íslenska ríkisins á ákvæðum EES-samningsins um ríkisstyrki.

Meginefni kvörtunar varðar ákvæði 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt ákvæðinu eru rafveitur, þar á meðal línur til flutnings raforku ásamt burðarstólpum og spennistöðvum, undanþegnar fasteignamati. Hins vegar skal meta eftir venjulegum reglum hús, sem reist eru yfir aflstöðvar og spennistöðvar, og þær lóðir er þau standa á.

Fjárhagslegir hagsmunir sem málið varðar

Umrætt lagaákvæði gerir það að verkum að verulegur hluti fasteignafjárfestingar fyrirtækja í raforkuframleiðslu er undanþeginn fasteignamati og þar með álagningu fasteignaskatts. Fasteignaskattur er almennt lagður á allar eignir sem metnar eru í fasteignamati og er einn megintekjustofn sveitarfélaga, sbr. II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Fasteignamat þeirra eigna raforkufyrirtækja sem metnar eru til fasteignamats og eru því andlag fasteignaskatts er í dag rösklega 60 ma. ISK. Þjóðskrá áætlar að heildarfasteignamat orkumannvirkja gæti verið allt að 847 ma.kr. eða 800 ma. ISK umfram mat í dag. Þetta mat er byggt á eignum eins og þær eru virtar í efnahagsreikningi orkufyrirtækja.

Almennt skatthlutfall fasteignaskatts vegna atvinnuhúsnæðis er 1,32%, sbr. c. lið 3. mgr. 3. gr. lag nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Fjárhagslegir hagsmunir af þeirri fasteignafjárfestingu raforkuframleiðslu sem undanþegin er fasteignamati er því um 10,5 ma. ISK á hverju ári, skv. framangreindum forsendum.

Fjárhæðin sem um ræðir er umfang þess ríkisstuðnings sem áætla má að raforkuframleiðendur á Íslandi njóti vegna áhrifa 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Hún endurspeglar jafnrframt fjárhagslegt tjón sveitarfélaga sem málið varðar, þar sem mannvirki raforkuframleiðenda falla ekki undir almennar reglur atvinnugreina á samkeppnismarkaði. Umfang þessara áhrifa má setja í það samhengi að heildar fasteignaskattar sveitarfélaga voru á árinu 2019 47,7 ma. ISK.

Sérstök ástæða er til að benda á að það fyrirkomulag ríkisaðstoðar sem kvörtunin tekur til er með öllu ógagnsætt. Hvergi liggja fyrir opinberar tölur um umfang stuðningsins, sem hlýtur að teljast andstætt meginreglum ríkisstyrkjareglna EES-réttar.

Ekki hefur náðst niðurstaða um endurskoðun laga

Undanþágan frá fasteignamati felur að áliti SO í sér ríkisstuðning til fyrirtækja í raforkuframleiðslu í því formi að fyrirtækin greiða ekki skatta af fasteignum í samræmi við almennar reglur sem orkar tvímælis gagnvart 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Sambærileg undanþága er ekki í lögum fyrir aðrar atvinnugreinar og varðar verulega hagsmuni, bæði á mælikvarða fyrirtækja í raforkustarfsemi og þeirra sveitarfélaga sem verða af skatttekjum vegna undanþágunnar.

Tilefni er til þess að benda á að skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja var tekið til gagngerrar skoðunar í upphafi þessarar aldar, í tengslum við innleiðingu Orkupakka 2 frá ESB. Í þeirri vinnu voru felldar niður undanþágur raforkufyrirtækja frá greiðslu tekju- og eignarskatts en því miður var á þeim tíma ekki gerð gangskör að því að breyta stöðu slíkrar starfsemi gagnvart álagningu fasteignaskatts til samræmis við almennar reglur.

Tveir starfshópar hafa á undanförnum árum starfað á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis að því verkefni að móta tillögur um breytt fyrirkomulag skattlagningar raforkumannvirkja. Sú vinna hefur ekki leitt til tillagna um lagabreytingar. Sjá Samtök orkusveitarfélaga ekki annan kost í stöðunni en að leita með ágreining um núgildandi skattframkvæmd til Eftirlitsstofnunar EFTA. Taki ESA málið til skoðunar má vænta þess að íslenska ríkið verði á næstu mánuðum beðið um að veita umsögn um erindi SO.

Fyrir hönd Samtaka orkusveitarfélaga veitir Stefán Bogi Sveinsson nánari upplýsingar um málið.