Á aukaaðalfundi Samtaka orkusveitarfélaga þann 19. september voru lagðar fram tillögur frá starfsnefnd samtakanna er varðar tekjur sveitarfélaga af orkuframleiðslu. Voru tillögurnar samþykktar með miklum meirihluta. Í tillögunum er að finna aðferð sem hægt væri að styðjast við vegna útreikninga á skiptingu tekna vegna orkuvinnslu.
Í kjölfarið fóru fulltrúar samtakana í þá vinnu að kynna tillögurnar fyrir ýmsum hagaðilum í samstarfi við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Haldnir hafa verið fundir með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, starfshópi um skattlagningu orkumannvirkja, starfshópi um vindorku og stjórn Samorku. Jafnframt hafa verið fleiri óformlegir fundir þar sem tillögurnar hafa verið ræddar.
Næstu skref eru að fulltrúar samtakanna ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga fund í lok nóvember með Fjármála- og efnahagsráðherra til að kynna tillögurnar. Von er á tillögum frá starfshópi um skattlagninu orkumannvirkja í byrjun desember og er stjórn spennt að sjá þá vinnu.