Auðlindarenta og nærsamfélagið

Í gær, fimmtudaginn 29. janúar, kynnti Hagfræðistofnun Háskóla Íslands nýútkomna skýrslu stofnunarinnar um auðlindarentu og nærsamfélagið. Skýrslan varpar ljósi á umgjörð raforkumála í Noregi og fleiri löndum sem nota vatnsaflsvirkjanir til raforkuvinnslu. Af þeirri kortlagningu má álykta að meta þurfi þjóðhagslegan kostnað og ávinning þess að skilgreina réttindi tengd raforkumálum þannig að sátt ríki um nýtingu auðlindarinnar.

Gunnar Þorgeirsson, formaður Samtaka orkusveitarfélaga, og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar héldu erindi á kynningarfundinum og sköpuðust góðar umræður um málefnið í lok fundar. Mikinn samhljóm mátti greina í svörum Harðar og Gunnars sem er fagnaðarefni fyrir Samtök orkusveitarfélaga.