Reykjavík, 13. febrúar 2019
Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga samþykkti á 35. fundi sínum eftirfarandi bókun vegna mótunar opinberrar orkustefnu 1. áfanga, mál nr. S-125/2018, sem er nú til umsagnar á samráðsgátt stjórnarráðsins:
Samtök orkusveitarfélaga leggja áherslu á að sanngjörn skipting arðs af orkuvinnslu hljóti að vera ein af mikilvægustu undirstöðum sjálfbærrar orkustefnu. Til þess að stuðla að sem ríkastri sátt í málaflokknum þurfa eftirtaldir að njóta hlutdeildar í þeim beina ávinningi sem hlýst af orkuvinnslu, eigandi auðlindar, orkuframleiðandi, orkukaupandi, samfélagið í heild og nærsamfélag virkjana.
Að mati samtakanna er skilvirkasta leiðin til að veita nærsamfélögum hlutdeild í arði af orkuvinnslu að skattleggja framleiðsluna og að þeir skattar sem um ræðir skiptist milli sveitarfélaga á áhrifasvæðum virkjana eftir skýrum og gegnsæjum reglum.
Fyrirmynd að slíku kerfi þar sem að nærsamfélög virkjana njóta hlutdeildar í arði af þeim þarf ekki að leita langt því að um áratuga skeið hefur slíkt kerfi verið við lýði í Noregi. Leiða má að því líkum að sanngjörn skipting á arðinum hafi leitt til aukinnar sáttar um uppbyggingu orkukerfisins í Noregi. Það er mat samtakanna að rík þörf sé fyrir slíka sátt um uppbyggingu virkjana og flutningskerfis raforku hér á landi og að breytingar á skattaumhverfi orkuvinnslu geti verið mikilvægt skref í átt að henni.
Samtök orkusveitarfélaga óska eftir aðkomu að og hlutdeild í vinnu við mótun orkustefnu, sem fulltrúi nærsamfélaga virkjana.
Veittur umsagnarfrestur um málið er til 15. febrúar nk. Var starfsmanni falið að fá birta á samráðsgátt ofangreinda bókun sem umsögn stjórnar um málið.
Virðingarfyllst,
Helga Guðrún Jónasdóttir,
starfsmaður Samtaka orkusveitarfélaga