Afnám undanþágu frá fasteignasköttum á haustþing

Fulltrúar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga áttu fund með Daða Má Kristóferssyni, fjármála- og efnahagsráðherra föstudaginn 7. febrúar en samtökin hafa sent ráðherrum erindi þar sem óskað er eftir fundi til að ræða málefni samtakanna. Núverandi fjármála- og efnahagsráðherra þekkir starfsemi samtakanna frá fyrri störfum og þekkir vel til vinnu samtakanna um auknar tekur til nærsamfélagsins er verða fyrir áhrifum orkuvinnslu.


Á fundinum var farið yfir þann samhljóm sem er milli markmiða Samtaka orkusveitarfélaga og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega þegar kemur að hlutdeild nærsamfélagsins í auðlindagjöldum og að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum ætti að renna til nærsamfélagsins.
Fram kom á fundi ráðherra að unnið væri að því að afnema undanþágu frá fasteignasköttum og stefnt væri að því að birta áformaskjal í febrúar eða mars í samráðsgátt stjórnvalda og að frumvarpið yrði lagt fyrir þing næsta haust.


Á fundinum var einnig farið yfir önnur markmið samtakanna, svo sem afnám undanþágu frá fasteignasköttun á flutningskerfi raforku, öfnun raforkuverðs og mótun stefnu og löggjafar um vindorku. Samtökin vilja þakka ráðherra fyrir góðan fund og vonast eftir góðu samstarfi um málefni þeirra á kjörtímabilinu. Samtökin fagna því einnig að vinna við afnám undanþágu frá fasteignasköttum á orkumarkvirki haldi áfram og stefnt sé að því að ljúka þeirri vinnu með lagasetningu á árinu.

Mynd: Ísleifur Jónasson, Ása Valdís Árnadóttir, Arnar Þór Sævarsson, Daði Már Kristófersson og Ingibjörg Helga Helgadóttir