Á stjórnarfundi Samtaka orkusveitarfélaga sem haldinn var á miðvikudaginn 10. janúar sl. var gerð eftirfarandi bókun :
Í samráðsgátt stjórnvalda er til umsagnar frumvarp til laga um vindorku. Stjórn samtaka orkusveitarfélaga sendu frá sér fréttatilkynningu þann 13. desember síðastliðinn, eftir kynningu á tillögum starfshóps um vindorku, þar sem því var komið á framfæri að það væri mat stjórnar að með þessum tillögum væri sannarlega verið að stuðla að sátt um uppbyggingu vindorkunýtingar. Í fréttatilkynningu stjórnar kom fram að starfshópurinn hefði náð vel utan um álitamálin er varða uppbyggingu vindorkunýtingar svo sem hvort slík verkefni eigi heima innan eða utan ramma, leggja til að virt sé skipulagshlutverk sveitarfélaga, horft hafi verið til umhverfis og náttúruverndarsjónarmiða svo sem með útilokun svæða, ávarpað leiðir til forgangsröðunar uppbyggingu og fleira.
Jafnframt var tekið fram að stjórn Samtaka orkusveitarfélaga myndi taka málið fyrir og veita umsögn þegar það kæmi í heild sinni í samráðsgátt stjórnvalda. Stjórn samþykkir því að leita til Guðjóns Bragasonar, lögfræðings hjá GB Stjórnsýsluráðgjöf til að aðstoða stjórn samtakanna við að gera umsögn, annars vegar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (virkjunarkostir í vindorku) og hins vegar um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.
Stjórn samþykkir að umsögnin verði send til aðildarsveitarfélaga um leið og hún liggur fyrir.
Jafnframt bíður stjórn með eftirvæntingu eftir niðurstöðum starfshóps um skattlagningu á orkumannvirki en sú vinna tengist svo sannarlega uppbyggingu vindorku.
Búast má við að umsagnir um málin muni liggja fyrir í fyrri part næstu viku og verði sendar aðildarsveitarfélögunum.