Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga bókaði eftirfarandi á stjórnarfundi í dag 16. maí:
- Vindorka, valkostir og greining – 2201001SO
Rætt var um skýrslu Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins „Vindorka – valkostir og greining“.
Stjórn fékk Guðjón Bragason lögfræðing til að vinna og setja saman umsögn um vindorkuskýrsluna fyrir hönd samtakanna.
Samantekt um efni umsagnar
- Nærsamfélag orkuvinnslu á ekki og getur ekki fórnað sinni náttúru og auðlindum án þess að njóta sanngjarns ávinnings af orkuframleiðslunni. Undanþága frá fasteignamati fyrir virkjanir er tímaskekkja sem verður að afnema.
- Framtíðarsýn ætti að vera að ákvarðanir um skipulag og leyfisveitingar verði teknar á grundvelli skýrrar stefnu stjórnvalda, heildstæðu regluverki og skýrum leiðbeiningum sem tryggi samræmda og skilvirka framkvæmd og fyrirsjáanleika í ákvarðanatöku.
- Við mótun stefnu um staðsetningu vindorkuvera verði ekki eingöngu horft til verndarhagsmuna út frá löggjöf um vernd landslags, náttúru og menningarminja heldur þarf vindorkunýting einnig að að vera í sátt við hið byggða umhverfi. Að slík starfsemi byggist einkum upp á röskuðum svæðum í grennd við iðnaðarsvæði er nálgun sem hugnast SO almennt vel en þörf er á frekari umræðu um hvort raunhæft er að einskorða þessa starfsemi við slík svæði.
- Skipulagsvaldið er hornsteinn sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga. Fela ætti sveitarstjórnum mun meira ákvörðunarvald um staðsetningu og umfang virkjana. Stjórnsýsla orkumála hér á landi er um margt frábrugðin því sem gildir í samanburðarlöndum og er á engan hátt sjálfgefið að rammaáætlun verði áfram í gildi.
- Takmarkanir á ákvörðunarvaldi sveitarstjórna þurfa að vera skýrt rökstuddar með tilliti til almannahagsmuna, þótt jafnframt þurfi að byggja inn í ferlið að hagsmunir nálægra sveitarfélaga og annarra atvinnugreina séu virtir og að markmið um vernd náttúru- og menningarminja séu tryggð.
- Settar eru fram ábendingar um mögulegar úrbætur á núverandi ferli rammaáætlunar. SO telur afar mikilvægt að kynning á fyrirhuguðum vindorkuverum fari fram áður en Orkustofnun vísar slíkum virkjanakostum til verkefnisstjórnar rammaáætlunar og jafnvel kæmi til álita að strax á því stigi geti sveitarstjórnir hafnað eða a.m.k. frestað því að einstakir virkjanakostir fari í formlegt ferli, t.d. ef sýnt þykir að þeir fari í bága við aðalskipulag sveitarfélagsins. Forsenda slíkrar málsmeðferðar er að gæði gagna sem fylgja virkjanakostum á frumstigi verði betri en nú er raunin.
Stjórn samþykkir umsögnina og felur formanni, Ásu Valdísi Árnadóttur að skila umsögninni inn í samráðsgáttina fyrir hönd stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga.
Umsögnin í heild sinni verður jafnframt send á öll aðildarsveitarfélögin og birt á heimasíðu orkusveitarfélaga.
Stjórn hvetur sveitarstjórnir til að taka undir umsögnina og/eða skila inn umsögn um vindorkuskýrsluna.
Stjórn þakkar Guðjóni Bragasyni fyrir hans vinnu.