Samþykktir

Samþykktir SO á PDF-formi

Samþykktir Samtaka orkusveitarfélaga

1. gr. Heiti og lögheimili.

Nafn samtakanna er Samtök orkusveitarfélaga, skammstafað SO. Lögheimili þess og aðsetur er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

2. gr. Aðild.

Sveitarfélög sem hafa innan sinna marka, starfandi orkuver eða virkjanir sem nýta vatnsafl, vindorku eða jarðhita til raforkuframleiðslu, slíkar virkjanir í umsóknarferli, í byggingu, í undirbúningi eða skilgreinda orkukosti í nýtingarflokki eða biðflokki rammaáætlunar eða í aðalskipulagi geta gerst aðilar að samtökunum. Einnig á þetta við um sveitarfélög sem tengjast vatnsmiðlun, virkjunarmannvirkjum eða vatnsflutningum til eða frá virkjunum eða virkjanakostum sem nefndir hafa verið.

Sveitarfélag sem óskar aðildar að SO sendir erindi þess efnis til stjórnar samtakanna. Stjórn er heimilt að veita aðild að samtökunum með fyrirvara um samþykki næsta aðalfundar.

Sveitarfélög sem hafa fyrst og fremst hagsmuna að gæta sem eigendur virkjana geta ekki orðið aðili að SO.

Heimilt er að veita undanþágu frá fyrrgreindum ákvæðum um aðild í sérstökum tilvikum og skal slík undanþága borin upp á aðalfundi og þarf samþykki meirihluta greiddra atkvæða.

3. gr. Tilgangur.

SO eru hagsmunasamtök sveitarfélaga sem hafa hagsmuna að gæta hvað varðar nýtingu orkuauðlinda innan sveitarfélagins. Er tilgangur þeirra eftirfarandi:

  • Að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga í öllum málum sem tengjast byggingu orkuvera og virkjana, orkunýtingar, fjárhagslegum hagsmunum í þessu sambandi og umhverfismálum.
  • Að taka þátt í mótun reglna um skattlagningu virkjana og orkufyrirtækja ásamt öðrum fjárhagslegum og umhverfislegum atriðum sem tengjast nýtingu orkuauðlinda.
  • Að taka þátt í mótun orkustefnu með áherslu á stöðu vatnsafls jarðvarma og vindorkusem sjálfbærrar orkuframleiðslu.
  • Að miðla upplýsingum og reynslu meðal aðildarsveitarfélaga um málaflokkinn.
  • Að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. vinnu við gerð laga og reglugerða sem varða orkumál og nýtingu jarðvarma og vatnsafls og stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem því tengjast.

Um frekari markmið og aðgerðir í þágu þessa tilgangs er fjallað í starfsáætlun stjórnar hverju sinni. Starfsáætlun stjórnar er aðgengileg á heimasíðu samtakanna.

Eingöngu er um að ræða félagasamtök og er enginn atvinnurekstur hjá félaginu.

4. gr. Árgjald.

Aðalfundur skal ákvarða hverju sinni árgjald aðildarsveitarfélaga þannig að samanlögð fjárhæð þeirra nægi til þess að standa straum af kostnaði við rekstur samtakanna.

Stjórn samtakanna skal leggja fram tillögu um fjárhæð gjalds á aðalfundi. Gjalddagi skal vera 1. febrúar ár hvert og eindagi 30 dögum síðar.

5. gr. Aðalfundur.

Aðalfundur SO hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda í september- eða októbermánuði annað hvert ár og skal hann haldinn á sléttum ártölum. Á aðalfundi starfa starfsnefndir skv. ákvörðun samtakanna, þ.á.m. kjörnefnd.

Kjörgengir á aðalfund SO og í stjórn samtakanna eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og starfsmenn sveitarfélaga. Láti aðal- eða varamaður í stjórn af starfi á vettvangi sveitarfélaga, eða hættir í sveitarstjórn, þá fellur umboð hans niður.

Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum, svo og starfsmenn sveitarfélaga, halda umboði sínu í stjórn að afloknum sveitarstjórnarkosningum til og með næsta aðalfundi.

Stjórn SO skal boða til aðalfundar rafrænum hætti eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundardag. Fundarboði skulu fylgja dagskrá fundarins, drög að skýrslu stjórnar, ársreikningar samtakanna, tillaga að fjárhagsáætlun og tillögur um breytingar á samþykktum.

Öll aðildarsveitarfélög hafa seturétt á aðalfundi og velja þau áheyrnafulltrúa sína á aðalfund, sem hafa málfrelsi og tillögurétt.

6. gr. Atkvæðisréttur.

Hvert aðildarsveitarfélag hefur eitt atkvæði við atkvæðagreiðslur. Aðildarsveitarfélög skulu tilgreina með rafrænum hætti til stjórnar hvaða fulltrúi sveitarfélagsins fer með atkvæði þess. .

Skilyrði atkvæðisréttar er að viðkomandi sveitarfélag sé skuldlaust við samtökin, sbr. 4. gr. samþykkta.

7. gr. Dagskrá aðalfundar o.fl.

Á dagskrá aðalfundar SO skal m.a. taka fyrir eftirfarandi:

  1. inntöku nýrra aðildarsveitarfélaga
  2. skýrslu stjórnar,
  3. ársreikninga samtakanna,
  4. fjárhagsáætlun samtakanna
  5. ákvörðun um árgjald og þóknun stjórnar,
  6. breytingar á samþykktum,
  7. kosningu formanns stjórnar, aðra stjórnarmenn og varastjórn til tveggja ára,
  8. kosningu tveggja skoðunarmanna
  9. mál sem stjórn samtakanna, einstakir fulltrúar eða sveitarstjórnir óska að tekin verði fyrir.

Við atkvæðagreiðslur á aðalfundi ræður meirihluti greiddra atkvæða niðurstöðu máls nema annað sé tekið fram í samþykktum.

8. gr. Aukaaðalfundur.

Heimilt er stjórninni að boða til aukaaðalfundar, ef þörf krefur. Aukaaðalfund skal boða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Aukaaðalfundur getur einungis tekið fyrir mál sem getið er í fundarboði.

9. gr. Orkufundur.

Árlega  skal halda orkufund. Orkufundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður. Orkufundur er öllum opinn og tekur ekki ákvarðanir í málefnum SO en getur beint ályktunum til stjórnar samtakanna.

10. gr. Stjórn Samtaka orkusveitarfélaga.

Stjórn SO skal skipuð fimm aðilum og þremur til vara. Skulu þeir kosnir á aðalfundi samtakanna, sbr. g-liður 7. gr. Aðalfundur kýs formann sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum. Á fyrsta fundi stjórnar skal skipa varaformann, ritara og gjaldkera. Komi fram tillögur um fleiri stjórnarmenn en fimm skal kosið milli þeirra og ræður afl atkvæða. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. 

Við kjör stjórnar skal leitast við að fulltrúar í stjórn samtakanna endurspegli sem best fjölbreytni þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að Samtökum orkusveitarfélaga og skal hlutfall kynja í stjórn vera eins jafnt og kostur er, annars vegar í aðalstjórn og hins vegar í varastjórn.

Verði niðurstaða atkvæðagreiðslu á þann veg að skilyrði um hlut beggja kynja í stjórn eða varastjórn sé ekki uppfyllt skal færa þann af því kyni sem fleiri eru af í stjórn eða varastjórn og fæst atkvæði fékk, úr stjórn eða varastjórn en taka í staðinn inn þann frambjóðanda af gagnstæðu kyni sem flest atkvæði fékk án þess að ná kjöri. Skal endurtaka þetta þar til ofangreindu jafnvægi milli kynja er náð. Að aflokinni slíkri leiðréttingu telst stjórn og varastjórn réttkjörin.

Segi fulltrúi sig úr stjórn SO eða lætur af störfum í sveitarstjórn eða hjá sveitarfélagi, ákveður stjórn hvaða varafulltrúi tekur sæti hans. Við ákvörðun sína skal stjórn taka tillit til niðurstöðu úr stjórnarkjöri og ofangreindra reglna um samsetningu stjórnar.

11. gr. Verkefni stjórnar o.fl.

Stjórn samtakanna ræður málum þess á milli aðalfunda.Stjórnin skal halda a.m.k. fimm stjórnarfundi á ári. Stjórnarformaður boðar stjórnarmenn saman til funda. Varamenn skulu fá afrit af fundarboði stjórnar til upplýsingar. Forfallist aðalmaður skal hann tilkynna það með rafrænum hætti til starfsmanns stjórnar. Í slíkum tilvikum tekur varamaður sæti í hans stað. Við boðun varamanns skal horft til 10. gr. samþykkta.

Heimilt er að halda stjórnarfund, og/eða taka þátt í slíkum fundi, með rafrænum hætti með notkun fjarfundarbúnaðar. Gilda sömu reglur um þá fundi og aðra fundi. Stjórnin skal rita fundargerðir stjórnarfunda með rafrænum hætti og skulu þær samþykktar með rafrænni undirritun hlutaðeigandi stjórnarmanna.  Endurrit undirritaðra fundargerða skulu send aðildarsveitarfélögum ásamt því að þær skulu birtar á heimasíðu SO.

Stjórninni er heimilt að skipa starfsnefndir um einstök mál og ákveða þóknun til nefndarmanna. Stjórn skal starfa samkvæmt samþykktri starfsáætlun hverju sinni. Heimilt er stjórn að gera viðauka við starfsáætlun á milli aðalfunda.

12. gr. Starfsáætlun.

Ný stjórn gerir starfsáætlun til tveggja ára í senn að loknum aðalfundi. Í starfsáætlun skal koma fram hvernig stjórn hyggst vinna að einstökum málum til samræmis við tilgang samtakanna.

13. gr. Reikningsár, fjárhagsáætlun o.fl.

Reikningsár SO skal vera almanaksárið.

Stjórn SO samþykkir ársreikninga samtakanna eftir að þeir hafa verið kynntir aðildarsveitarfélögum og yfirfarnir af skoðunarmönnum, en þeir eru síðan lagðir fram á næsta aðalfundi til staðfestingar.

Fjárhagsáætlun til næstu tveggja ára skal lögð fram á aðalfundi til samþykktar. Stjórn samtakanna getur breytt fjárhagsáætlun milli aðalfunda eftir að breytingartillögurnar hafa verið kynntar aðildarsveitarfélögum. Stjórn er þó ekki heimilt að auka heildarútgjöld samtakanna nema að því marki að tekjur hrökkvi til.

14. gr. Breytingar á samþykktum.

Samþykktum þessum má breyta á aðalfundi. Tillögur um breytingar á samþykktum skulu lagðar fyrir stjórn a.m.k. fjórum vikum fyrir aðalfund og þær sendar til aðildarsveitarfélaga eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund og skal þeirra getið í fundarboði. Til breytinga á samþykktunum þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

15. gr. Úrsögn.

Vilji aðildarsveitarfélag segja sig úr SO skal koma slíkri beiðni á framfæri við stjórn félagsins með rafrænum hætti. Aðildarsveitarfélag öðlast ekki rétt á endurgreiðslu árgjalds óski það eftir úrsögn úr samtökunum.

Hafi árgjald ekki verið greitt á eindaga, sbr. 4. gr. samþykkta, skal kanna hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi um ástæður þess og leitað skýringa. Komi engar skýringar og eða árgjald ekki greitt verður litið svo á að hlutaðeigandi aðildarsveitarfélag óski eftir úrsögn úr félaginu.

16. gr. Slit.

Ákvörðun um slit samtakanna verður aðeins tekin á aðalfundi með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði slík tillaga samþykkt skulu eignir samtakanna renna til Sambands íslenskra sveitarfélaga til varðveislu en verði önnur samtök stofnuð í sambærilegum tilgangi skulu eignirnar renna til þeirra.

Samþykkt þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á aðalfundi Samtaka orkusveitarfélaga þann 11. nóvember 2022.