Samanburður á orkukostnaði heimila á nokkrum stöðum

Byggðastofnun hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á nokkrum þéttbýlisstöðum og nokkrum stöðum í dreifbýli á ársgrundvelli. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 140 m2 að grunnfleti og 350m3.  Gjöldin eru reiknuð út samkvæmt gjaldskrá þann 1. apríl 2015.

Við útreikninga þessa er almenn notkun og fastagjald tekið saman annarsvegar og hitunarkostnaður hinsvegar. Sala á rafmagni er á samkeppnismarkaði og er í útreikningum Orkustofnunar miðað við að allir kaupi orku þar sem orkan fæst á lægsta verði, í þessu tilfelli hjá Orkubúi Vestfjarða.

Notendur eru bundnir því að versla við dreifiveitur á sínu svæðum sem hafa sérleyfi á dreifingu og flutningi á raforku. Almennt eru það síðan dótturfyrirtæki dreifiveitnanna sem selja sama notanda raforku til notkunar. Notendum virðist almennt ekki vera ljóst að þeim er heimilt að kaupa raforku af hvaða sölufyrirtæki sem þeir kunna að kjósa en þau eru nokkur og með mismunandi verð. Það gæti stafað af því að sáralítill verðmunur er á milli einstakra söluaðila og því eftir litlu að slægjast. Í töflunni yfir orkukostnaðinn má því sjá algengasta verðið á raforku á hverjum stað en jafnframt það verð sem notendum stendur lægst til boða með því að velja annan söluaðila. Í flestum tilvikum er um  lítinn mun að ræða, um og innan við 1%. En í nokkrum tilvikum getur munurinn nálgast 5%. Sala á rafmagni er á samkeppnismarkaði og er í útreikningum Orkustofnunar miðað við að allir kaupi orku þar sem orkan fæst á lægsta verði.

Af þeim stöðum sem skoðaðir voru reyndist rafmagnsverð hæst hjá notendum Orkubús Vestfjarða í dreifbýli kr. 102.010 en var hæst hjá RARIK í dreifbýli árið 2014. Í þéttbýli er rafmagnsverð hæst á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða kr. 80.021 en var hæst hjá RARIK árið 2014. Munurinn er þó lítill eða í kringum 1%. Lægst er rafmagnsverðið á Akureyri kr. 69.404 en árið 2014 var rafmagnsverð einnig lægst á Akureyri. Hæsta verð í dreifbýli er 47% hærra en lægsta verð í þéttbýli og hefur munurinn minnkað því árið 2014 var munurinn 51%. Í þéttbýli er hæsta verð 15% hærra en lægsta verð og hefur munurinn minnkað um 1% frá 2014.

Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn öllu meiri. Þar er kyndingarkostnaðurinn sá sami á orkuveitusvæði RARIK í dreifbýli og  hjá Orkubúi Vestfjarða í dreifbýli kr. 203.015. (Sé miðað við algengasta verð á húshitun er hæsta verðið hjá RARIK kr. 214.678.) Í þéttbýli er kostnaðurinn hæstur á Hólmavík kr. 198.916. Árið 2014 var húshitunarkostnaður hæstur á dreifiveitusvæði Orkubús Vestfjarða þar sem rafmagnshitun er við lýði s.s. Hólmavík. Lægsti húshitunarkostnaðurinn er í Hveragerði kr. 85.255 en árið 2014 var húshitunarkostnaður  lægstur á Sauðárkróki. Hæsta verð í dreifbýli er 138% hærra en lægsta verð í þéttbýli og hefur munurinn minnkað því árið 2014 var munurinn 144%. Í þéttbýli er hæsta verð 133% hærra en lægsta verð og hefur munurinn þar staðið í stað því árið 2014 var munurinn einnig 133%.

Ef horft er til heildarkostnaðar þá er kostnaðurinn hæstur í dreifbýli á orkuveitusvæði Orkubús Vestfjarða kr. 305.025 en var hæstur á orkuveitusvæði RARIK í dreifbýli árið 2014. (Ef miðað er við algengasta verð er heildarverðið hæst hjá RARIK kr. 317.496). Heildarkostnaður í þéttbýli er hæstur á Hólmavík kr. 278.937 en var hæstur á dreifiveitusvæði Orkubús Vestfjarða s.s. á Hólmavík og dreifiveitusvæði RARIK s.s. í  Grundarfirði, Neskaupstað og Vopnafirði árið 2014. Lægstur er heildarkostnaðurinn í Hveragerði kr. 164.600 en var lægstur á Akureyri árið 2014 . Hæsta verð í dreifbýli er því 85% hærra en lægsta verð í þéttbýli og hefur munurinn minnkað því árið 2014 var munurinn 94%. Í þéttbýli er hæsta verð 69% hærra en lægsta verð og hefur munurinn minnkað því árið 2014 var munurinn 72%.

Smellið hér að neðan til að sjá töflu og súlurit

Hafa ber í huga að á nokkrum stöðum er veittur afsláttur af gjaldaskár hitaveitu þar sem ekki er hægt að tryggja lágmarkshita vatns til notanda.

Virðisaukaskattur hefur hækkað úr 7% í 11% á hitun en lækkað úr 25.5% í 24% á almenna notkun og fastagjöld. Dreifbýlisframlagið fór úr 1.44 kr/kWst í 2.14 kr/kWst á dreifiveitusvæði RARIK og úr 1.55 kr/kWst í 2.17 kr/kWst á dreifiveitusvæði Orkubús Vestfjarða. Lagt er á notendur 0.20 kr/kWst í jöfnunargjald. Sambærilegt gjald fyrir kyntar hitaveitur er 0.066 kr/kWst.. Hitaveitur bera ekki jöfnunargjald. Þær greiða 2% orkuskatt en raforkufyrirtækin greiða 0,13 kr/kWst í orkuskatt til viðbótar við jöfnunargjaldið.  Breyting á virðisaukaskattinum úr 7% í 11% er stærsti áhrifaþáttur þeirra breytinga sem orðið hafa á verðum.

Eldri greiningar má sjá með því að smella hér.

Nánari upplýsingar veitir Snorri Björn Siguðrsosn, forstöðumaður þróunarsviðs í síma 455 5400 eða netfanginu snorri@byggdastofnun.is